Haustútskrift mynd GK
Þann 19. desember brautskráðust 24 nemendur frá Menntaskólanum á Tröllaskaga við hátíðlega athöfn. Hafa nú alls 626 nemendur brautskráðst frá skólanum frá því hann var stofnaður árið 2010. Það sem er einstakt við þennan útskriftarhóp er að allir í honum eru fjarnemar en það hefur aldrei gerst áður. Útskriftarnemarnir að þessu sinni koma frá átta stöðum á landinu og tveir af þeim dvelja erlendis. Aðeins fimm nemanna sáu sér fært að vera við athöfnina en líkt og undanfarin ár var hún einnig send út á fésbókarsíðu skólans svo allir útskriftarnemar og fjölskyldur þeirra gætu notið stundarinnar.
Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari stýrði athöfninni og sagði frá starfinu á önninni. Í máli hennar kom m.a. fram að tæplega 520 nemendur stunduðu nám við skólann á önninni, flestir á kjörnámsbraut og starfsmenn við skólann voru 29. Mikill meirihluti nemenda eru fjarnemar sem búsettir eru vítt og breitt um landið og þó nokkrir erlendis.Hún sagði einnig frá því að gegnum árin hafi skólinn verið duglegur að taka þátt í erlendum verkefnum. Erasmus- og Nordplus-styrkir væru fastur liður í skólastarfinu sem gerðu nemendum og kennurum kleift að fara í námsferðir og einnig að taka á móti nemendahópum erlendis frá. Á önninni hafi nemendur t.d. tekið á móti hópi frá Lettlandi og hópur frá MTR fór til Króatíu. Áframhald verði á slíkum samstarfsverkefnum því þau séu sérstaklega lærdómsrík. Þá væri MTR UNESCO-skóli og lögð væri áhersla á að flétta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í allt starf hans. Helstu áhersluatriði til þessa væru mannréttindi, umhverfismál og friður.
Lára Stefánsdóttir skólameistari lagði í ávarpi sínu áherslu á að allir nemendur skólans skiptu starfsfólk skólans jafn miklu máli hvort sem þeir mættu í skólann til að stunda sitt nám eða væru fjarnemar. Í skólanum hefði verið þróað fjarnám af miklum metnaði þar sem reynt væri að koma til móts við alla og stöðugt væri unnið að því að bæta þjónustuna. Kannanir hefðu verið gerðar á því hvernig útskrifuðum nemendum frá skólanum gengi í áframhaldandi námi og niðurstöður sýndu að þeir stæðu þar mjög vel. Einnig ræddi hún um áskoranir fjarnáms og hvaða þrautseigju slíkt nám þróaði hjá nemendum því það krefðist mikils sjálfsaga og fórna að stunda slíkt nám. Sú þjálfun kæmi nemendum vel í því sem þau tækju sér fyrir hendur í framtíðinni m.a. hefði fjarvinna færst mjög í vöxt á undanförnum árum og með því að tileinka sér öguð og sjálfstæð vinnubrögð eru þau betur undirbúin að taka þátt í nútíma samfélagi. Einnig ræddi hún um inngildingu, að allir hefðu jafnan rétt hvaðan sem þeir koma eða hverjir sem þeir væru. Því væri það svo að við gerðum engan greinarmun á staðnemum og fjarnemum, okkur þætti jafn vænt um þau öll, árangur þeirra skipti okkur jafn miklu máli og við værum jafn glöð og stolt þegar þau útskrifast.
Dúx skólans varð Elísa Alda Ólafsdóttir Smith og útskrifaðist hún með hæstu meðaleinkunn sem gefin hefur verið frá stofnun skólans; 9,63 og hlaut viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan árangur í fjölda greina. Særún Sól Róbertsdóttir varð semidúx og útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,36 og hlaut einnig viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í nokkrum greinum. Viðurkenningar frá skólanum voru listmunir eftir Aðalheiði Eysteinsdóttur. Viðtöl um upplifun þeirra af náminu verða birt hér á síðunni um helgina.
Ávarp nýstúdents flutti Steinunn Ólöf Hjartardóttir. Hún byrjaði á að þakka kennurum og starfsfólki skólans fyrir ómetanlegan stuðning, hún hefði upplifað það svo sterkt á árum sínum í skólanum að hver nemandi skipti máli. Ekki eru allir settir í sama boxið heldur fengju styrkleikar hver og eins að njóta sín. Áfangavalið væri mjög fjölbreytt og allir ættu að geta fundið eitthvað á sínu áhugasviði. Hún hefði upplifað mikinn persónulegan missi á þessari önn og verið við það að hætta í náminu en ómetanlegur stuðningur frá kennurum skólans hefði gert henni kleift að finna sjálfa sig aftur svo hún hefði getað haldið náminu áfram. Þakkaði hún sérstaklega kennurunum Bergþóri Morthens myndlistarkennara og Birgittu Sigurðardóttur umsjónarkennara fjarnema fyrir persónulegan stuðning og þeim Ingu Eiríksdóttur stærðfræðikennara og Tryggva Hrólfssyni enskukennara fyrir nýstárlegar kennsluaðferðir sem hjálpuðu henni mikið í sínu námi. Einnig færði hún öllum öðrum kennurum kærar þakkir fyrir hönd útskriftarnema fyrir að færa þeim nýja þekkingu og massíva orku sem þau munu skjóta eins og eldflaugum inn í framtíðina.
Við athöfnina lék Kolfinna Ósk Andradóttir tvö lög á fiðlu við undirleik Ave Kara Sillaots á píanó. Myndir