Ljósm. Gísli Kristinsson.
Þrjátíu og sex nemendur brautskráðust í dag frá Menntaskólanum á Tröllaskaga. Alls hafa nú 531 nemandi brautskráðst frá skólanum en þetta er þrettánda starfsár hans. Dúx skólans er Elfa Benediktsdóttir frá Þórshöfn.
Stærstur hluti nemenda skólans eru fjarnemar og voru 26 þeirra að útskrifast í dag. Þau koma frá ellefu stöðum af landinu og þrjú búa erlendis. Átján þeirra voru viðstödd brautskráningar athöfnina í dag og mörg voru að koma í skólann í fyrsta sinn á útskriftardaginn.
Lára Stefánsdóttir skólameistari sagðist í ávarpi sínu telja að stúdentspróf væri frekar varða á veginum heldur en tímamót. Mikilvægt væri að halda áfram ferðinni og hafa kjark til að taka eitthvað til bragðs. Mistök væru til að læra af og benti til þess að viðkomandi hefði haft áræði til að taka ákvörðun og framkvæma. Nefndi hún í því sambandi einkunnarorð skólans; frumkvæði, sköpun, áræði. Þá varð Láru tíðrætt um umhverfismál í ávarpi sínu. Hún sagðist hafa lært mikið um sjálfbærni og verndun náttúrunnar af samstarfsfólki sínu en mikil áhersla væri á þessa þætti í skólastarfinu. Hún nefndi sérstaklega hvað neysla og kaup á öllu mögulegu væri slæm og þegar hún hefði tileinkað sér hófsemi og nægjusemi hefði hún áttað sig á hvað hún var að spara mikla peninga. Þetta hefði hún lært af nemendum sínum og samstarfsfólki.
Við athöfnina í dag fékk Elfa Benediktsdóttir viðurkenningu frá skólanum fyrir ágætiseinkunn í íslensku, spænsku, stærðfræði og félagsgreinum en hún er einnig dúx skólans eins og fyrr segir. Elfa fékk einnig viðurkenningu frá danska mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir framúrskarandi árangur dönsku. Þá hlutu Brynjar Bergmann Björnsson viðurkenningu frá skólanum fyrir framúrskarandi árangur í listgreinum og Sara Kristín K. Bjarkardóttir í listljósmyndun. Viðurkenningar frá skólanum eru listmunir eftir Aðalheiði Eysteinsdóttur og Bjarna Guðmundsson en þau búa og starfa á Tröllaskaga.
Ávarp nýstúdents flutti Elfa Benediktsdóttir. Hún gerði fjarnámið og símatið að umtalsefni og skipulag námsins í MTR hefði gert henni kleift að afla sér menntunar samhliða fullri vinnu. Hún gæti stundað nám sitt hvar sem er og hefði t.d. skilað verkefnum frá Nýja-Sjálandi, Mexíkó, Skotlandi og Hawaii. Hún þakkaði samstarfið við kennarana sem hún sagði vera jákvæða og uppörvandi en einnig kröfuharða.
Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari stýrði athöfninni í dag og Ronja Helgadóttir nýstúdent söng tvö lög. Ave Kara Sillaots lék undir á píanó. Myndir