25. nóvember er Alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Kynbundið ofbeldi viðgengst þegar enginn talar um það og þótt unnið hafi verið gott starf til að stemma stigu við því á síðustu árum sýna tölur að enn er langt í land. Fjölmargir UNESCO-skólar halda uppi metnaðarfullu kynjafræðinámi fyrir nemendur sína og er mikilvægur liður í náminu að læra um kynbundið ofbeldi. Félag Sameinuðu þjóðanna og félag kynjafræðikennara tóku höndum saman í tilefni dagsins og hvöttu skóla til þess að standa fyrir fræðslu um kynbundið ofbeldi innan skóla sem og víðar í samfélaginu.
Hér í MTR fengum við fulltrúa frá Aflinu á Akureyri í heimsókn, þær Erlu Hrönn og Ídu. Aflið veitir faglega ráðgjöf til þolenda ofbeldis og aðstandenda þeirra og öll þjónusta þar er gjaldfrjáls. Unnið er eftir hugmyndafræði um hjálp til sjálfshjálpar og byggir ráðgjöf Aflsins á fimm megin gildum áfallamiðaðrar þjónustu, sem eru öryggi, traust, valdefling, valfrelsi og samvinna. Aflið var stofnað fyrir 20 árum, að fyrirmynd Stígamóta, og er með höfuðstöðvar á Akureyri en býður einnig upp á staðviðtöl á Siglufirði, Blönduósi, Húsavík, Egilsstöðum og Reyðarfirði. Auk þess er boðið upp á viðtöl og ráðgjöf í gegnum síma og tölvur þannig að þeir sem sækja þjónustu til Aflsins geta í raun verið staðsettir hvar sem er.
Erla Hrönn sagði frá starfsemi Aflsins og fór yfir ýmsa tölfræði varðandi ofbeldi og afleiðingar þess. Hjá henni kom m.a. fram að konur eru í miklum meirihluta þeirra sem verða fyrir ofbeldi og 90% þeirra sem til Aflsins leita eru konur. Lagði hún áherslu á að Aflið væru samtök fyrir þolendur alls ofbeldis, þangað væri alltaf hægt að leita og þjónustan væri gjaldfrjáls. Hjá Aflinu eru 9 starfskonur, m.a. sálfræðingar, markþjálfar,fjölskyldufræðingur, þroskaþjálfi, kynjafræðingur, iðjuþjálfi og hjúkrunarfræðingur. #Noexcuse