Gísli Hvanndal. Mynd: GK
Gísli Hvanndal flutti ávarp nýstúdents á útskrift skólans.
Ávarp Nýstúdents
Kæru nýstúdentar, kennarar, starfsmenn skólans og aðrir gestir.
Fyrir þó nokkrum árum sagði einn maður við mig nokkur orð sem hafa fylgt
mér æ síðan. Þessi orð hans féllu djúpt inn í sál mína. Á þessum tíma var ég mjög týndur og
vissi ekki hvert ég stefndi í lífinu. En hann sagði, Gísli, gerðu eitthvað úr sjálfum þér. Notaðu það sem
þú hefur og gerðu eitthvað úr sjálfum þér. Ástæðan fyrir að þessi orð höfðu svo mikil áhrif á mig
var vegna þess að þarna var nánast bláókunnugur maður sem virtist hafa meiri trú á sjálfum mér en ég sjálfur.
Ég ákvað að taka manninn á orðinu og hans orð eru ein ástæða þess að ég stend hérna í dag með þessa
fallegu húfu.
Eitt af því sem ég hef lært á göngu minni í Menntaskólanum á Tröllaskaga er það að
við erum okkar eigin gæfu smiðir. Árangur okkar sem erum að útskrifast er afrakstur okkar eigin vinnu.
Ég held samt sem áður að samnemendur mínir sem eru að útskrifast hér í dag, og með þeirri
útskrift að vinna mikinn persónulegan sigur, geti verið mér sammála um að án óbeins og beins stuðnings frá fjölskyldu og
ástvinum hefði þetta ferðalag verið mun erfiðara. Ástvinir okkar og fjölskylda hafa átt stóran þátt í að móta
umhverfi okkar og með því gefið okkur tækifæri til að leggja rækt við námið.
Allir eru ekki svo lánsamir og það er því eitthvað sem við getum verið mjög þakklát fyrir.
Menntaskólinn á Tröllaskaga er að mínu mati einn besti gullmoli í
sögu Fjallabyggðar. Með komu skólans hefur okkur verið gert kleift að mennta okkur í heimabyggð, en ég veit um marga sem hafa sagt mér að ef
skólinn hefði ekki komið í Fjallabyggð hefðu þau að öllum líkindum ekki tekið það skref að fara í menntaskóla vegna
erfiðleika við að þurfa að flytja, finna nýja vinnu o.s.v.f.
Með komu skólans hafa því mun fleiri menntað sig og með því opnað veginn fyrir marga til að ganga áfram
menntaveginn í Háskólum landsins.
Sú menntun sem ég hef fengið í Menntaskólanum á Tröllaskaga hefur gert það að verkum að ég
stefni ákveðinn á háskólanám. Kennslan í skólanum er til fyrirmyndar og er mjög góður undirbúningur fyrir
háskólanám. Ég hef þá einlægu trú að skólinn eigi eftir að verða mjög þekktur í náinni
framtíð, bæði fyrir öguð vinnubrögð og skapandi hugsun.
En nú hefst nýr kafli fyrir okkur nýstúdenta. Hvort sem að
háskólanám verður fyrir valinu eða ekki heldur lífið áfram í einhverri mynd fyrir okkur öll. Við getum verið stolt af okkur og
því sem við höfum lært til þessa og gengið um með höfuðið hátt og bros á vör.
Að hugsa í lausnum í stað hindrana er eitt af því sem ég hef lært í Menntaskólanum á
Tröllaskaga. Það viðhorf hefur reynst mér mjög vel og ætla ég mér því að taka það með mér út í
lífið.
Við nýstúdentar kveðjum í dag Menntaskólann á Tröllaskaga með miklu þakklæti. Við viljum
þakka öllum kennurum og starfsfólki fyrir þann frábæra stuðning sem við höfum fengið við nám okkar.
Menntaskólinn á Tröllaskaga er komin til að vera.
Takk fyrir mig og til hamingju nýstúdentar.