Áhugasamir gestir

Slóvenar í heimsókn
Slóvenar í heimsókn
Vinnutímafyrirkomulagið í skólanum, vikuleg verkefnaskil og samfellt leiðsagnarmat vöktu mesta athygli þriggja kennara frá Slóveníu sem hér hafa verið í viku til að kynna sér skólastarfið. Þetta myndu þær vilja taka upp í Ljutomer. Þar eru 700 nemendur og fimmtíu kennarar. Skipulagið er hefðbundið bekkjarkerfi, stundaskrár eru fastar í forminu og námsmat er próf.

Vinnutímafyrirkomulagið í skólanum, vikuleg verkefnaskil og samfellt leiðsagnarmat vöktu mesta athygli þriggja kennara frá Slóveníu sem hér hafa verið í viku til að kynna sér skólastarfið. Þetta myndu þær vilja taka upp í Ljutomer. Þar eru 700 nemendur og fimmtíu kennarar. Skipulagið er hefðbundið bekkjarkerfi, stundaskrár eru fastar í forminu og námsmat er próf.

 

Gestirnir heita Liana Miholic sem kennir ensku og þýsku, Sonja Fercak sem kennir félagsfræði og landafræði og Martina Domajnko sem er námsráðgjafi skólans. Markmið þeirra með heimsókninni var að kynna sér sveignanleika í skólastarfi, notkun upplýsingatækni, fjarkennslu og möguleika nemenda á að velja sér verkefni, svo sem lokaverkefni og önnur stærri verkefni sem nemendur MTR geta valið og skipulagt en notið leiðsagnar kennara.

 

Þeim stöllum þóttu vinnutímarnir mjög athyglisvert skipulag og jafnframt að nemendur fengju stöðuga endurgjöf fyrir verkefni sem þeir yrðu að skila vikulega. Þær sögðust stundum leggja fyrir heimaverkefni en gætu lítið gert ef nemendur sinntu þeim ekki. Engin viðurlög væru við slíku og framvinda námsins metin með prófum. Þær heyrðu líka af vendikennslu og fannst hún áhugaverð en urðu ekki vitni að henni. Þá virtist þeim brautaskipulagið kostur og veita nemendum mikið val.

 

Það eina sem þær nefndu þegar þær voru spurðar hvort þær hefðu séð eitthvað sem væri óheppilegt eða gæti verið betra var að tölvunotkun væri hugsanlega of mikil. Nemendur þyrftu líka að æfa sig í tjáskiptum auglitis til auglitis og ná leikni í samræðu. En auðvitað hefði upplýsingatæknin kosti og gerði fjarnámið mögulegt.

 

Þær höfðu orð á hljóðlátu umhverfi í skólanum og var þá sagt frá því að hugað hefði verið að því með skipulegum hætti að hljóðvistin væri góð. Þær sögðu að sínir nemendur væru hávaðasamari en nemendur hér, þeir snertust meira og hlægju hærra. Þetta væri menningarmunur en líka gæti verið að samskipti yrðu innilegri ef fólk væri í fjögur ár alltaf í sama hópnum. Hugsanlega væri æskilegt að nemendur hér töluðu aðeins meira en notuðu tölvuna aðeins minna en slóvensku nemendurnir mættu tala minna hafa lægra.