Haustsýning mynd GK
Ljóðlistaráfangi var kenndur í MTR í fyrsta sinn á haustönninni. Kennari var Þórarinn Hannesson, forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands á Siglufirði. Í áfanganum var farið í gegn um sögu íslenskrar ljóðlistar og fræðst um strauma og stefnur frá landnámsöld til okkar tíma. Nemendur kynntust grunnreglum í íslenskri bragfræði og spreyttu sig á að setja saman vísur á réttan hátt. Árangurinn af þeim æfingum var misjafn og gekk mörgum betur að semja ljóð sem ekki eru jafn föst í forminu. Einnig settu nemendur saman ljóð í anda ólíkra stefna sem kynntar voru og notuðu ýmis stílbrögð, svo sem persónugervingar, viðlíkingar og myndhverfingar. Hægt er að kynna sér afraksturinn á sýningu á verkum nemenda sem er opin á skólatíma fram yfir útskrift laugardaginn 16. desember, - en hér eru tvö sýnishorn:
Þriðjudagur
Ung stelpa situr á tröppunum,
drekkur te og les gamla bók.
Hárið rauðbrúnt
eins og fallið lauf að hausti.
Hvernig finnst þér Shakespere?
spyr ég og finn að mér hitnar;
ég roðna.
Hún lítur upp brosandi,
allt verður gott.
Silja Ýr Gunnarsdóttir
Vísa
Yndælust rós allra rósa,
rósin mín smáa ert þú.
Skærasta ljós allra ljósa
sem ljómar í hjarta mér nú.
Rebekka Ýr Sigurþórsdóttir