Ljósmynd: SMH.
Á degi gegn einelti 8. nóvember samþykkti Menntaskólinn á Tröllaskaga uppfærða útgáfu af áætlun gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Samkvæmt lögum skulu framhaldsskólar hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað. Í reglugerð nr. 1009/2015 er fjallað um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Áætlunin var unnin og uppfærð af fagteymi ofbeldismála í Menntaskólanum á Tröllaskaga í samvinnu við nemendur skólans og starfsfólk.
Áætlunin nær yfir alla nemendur skólans og starfsfólk og skýrir þá ferla sem fara í gang þegar grunur vaknar um einelti, áreitni eða ofbeldi. Skilgreiningar, birtingarmyndir og verkferlar hafa verið yfirfarnir og áætlunin gerð aðgengileg á heimasíðu skólans. Tilkynningagátt er opin og rauðmerkt á valmynd vinstra megin á heimasíðu skólans. Upphaflega hafði starfshópur þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra skilaði greinargerð og tillögum í júní 2021 um markvissa kennslu kynheilbrigðis og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum. Ein tillagan laut að samræmdri viðbragðsáætlun fyrir framhaldsskóla landsins þegar kemur að ofbeldi og átti skv. tillögu starfshópsins að vinnast á árunum 2021-2022. Þó sú viðbragðaáætlun hafi ekki litið dagsins ljós ennþá taldi skólinn enga ástæðu til að bíða með sína uppfærslu. Gert er ráð fyrir uppfærslu áætlunarinnar annað hvert ár en hún verður sérstaklega yfirfarin eftir að ráðuneytið skilar sínu verki.
Fagteymi ofbeldismála í Menntaskólanum á Tröllaskaga skipa Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari, Hólmar H. Óðinsson skólaráðgjafi og Óskar Þórðarson kennari. Beina má frekari fyrirspurnum til þeirra. Er það von skólans að viðbragðasáætlunin auki öryggi og vellíðan allra í skólasamfélaginu í Menntaskólanum á Tröllaskaga.
Sérstaklega má benda á úrræðaleitarvél 112.is þegar kemur að ofbeldi: https://www.112.is/urraedi og síðuna STOPPofbeldi! þar sem finna má fræðsluefni um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni: https://stoppofbeldi.namsefni.is/