Haustútskrift mynd GK
Þann 20. desember sl. brautskráðust 18 nemendur frá Menntaskólanum á Tröllaskaga við hátíðlega athöfn, eru það mun færri en undanfarnar annir. Hafa nú alls 550 nemendur brautskráðst frá skólanum frá því hann var stofnaður árið 2010. Mikill meirihluti nemenda skólans eru fjarnemar sem búsettir eru vítt og breitt um landið og nokkrir erlendis. Útskriftarnemarnir að þessu sinni koma frá tíu stöðum á landinu og tveir þeirra búa erlendis, sextán þeirra eru fjarnemar. Aðeins fjórir nemanna sáu sér fært að vera við athöfnina en líkt og undanfarin ár var hún einnig send út á fésbókarsíðu skólans svo allir útskriftarnemar og fjölskyldur þeirra gætu notið stundarinnar. Þá var einn fyrrverandi stúdent frá MTR útskrifaður sem sjúkraliði frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra við athöfnina.
Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari stýrði athöfninni og sagði frá starfinu á önninni. Í máli hennar kom m.a. fram að 505 nemendur stunduðu nám við skólann á önninni, flestir á kjörnámsbraut og starfsmenn við skólann á önninni voru 27. Hún sagði einnig frá því að gegnum tíðina hafi skólinn verið duglegur að taka þátt í erlendum verkefnum. Erasmus-styrkir væru fastur liður í skólastarfinu og hafi þeir gert bæði nemendum og kennurum kleift að fara í ferðir til útlanda og taka einnig á móti nemendahópum erlendis frá. Skólinn muni halda ótrauður áfram í slíkum samstarfsverkefnum því þau séu sérstaklega lærdómsrík og gefandi. Þá væri MTR UNESCO-skóli og grænfánaskóli og unnið hafi verið ötullega að umhverfismálum, m.a. hafi skólinn tekið þátt í verkefninu „Græn skref í ríkisrekstri“ síðustu ár og hafi lokið við að uppfylla öll fimm skrefin í því verkefni.
Lára Stefánsdóttir skólameistari lagði í ávarpi sínu áherslu á að allir nemendur skólans skiptu starfsfólk skólans jafn miklu máli hvort sem þeir mættu í skólann til að stunda sitt nám eða væru fjarnemar. Tók hún sem dæmi að ellefu af fjarnemum skólans búa í Grindavík og þegar jarðhræringarnar byrjuðu þar var hringt í þá alla til að athuga hvernig staða þeirra væri og hvernig skólinn gæti komið til móts við þá í náminu. Einnig sló hún á þá mýtu að fjarnám væri ekki alvöru nám, engum dytti í hug að tala um að fjarvinna væri ekki alvöru vinna, af hverju ætti fjarnám þá ekki að vera alvöru nám. Að lokum ræddi hún um mikilvægi þekkingar og fræðslu og setti það m.a. í samhengi við atburðina í Grindavík með því að benda á hversu mikilvægt væri að fræða börnin sérstaklega til að slá sem mest á ótta og óvissu.
Við athöfnina fékk Dagný Kára Magnúsdóttir viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan árangur í íslensku, spænsku og félagsgreinum og Elva Rún Árnadóttir fyrir framúrskarandi árangur í listljósmyndun. Viðurkenningar frá skólanum voru listmunir eftir Aðalheiði Eysteinsdóttur.
Ávarp nýstúdents flutti Dagný Kára Magnúsdóttir og var það spilað af myndbandi þar sem Dagný gat ekki verið viðstödd. Hún lagði áherslu á hversu góða menntaskólareynslu hún hefði öðlast þrátt fyrir að hafa verið fjarnemi og aldrei komið inn fyrir skólans dyr; hún hafi hreinlega blómstrað í náminu. Hún hafi átt sérlega góð samskipti við umsjónarkennara sinn sem og aðra kennara skólans og náð að tengjast þeim vel og persónulega þó öll samskipti hafi farið fram í netinu. Einnig sagði hún frá því að hún hefði eignast mjög góða vinkonu í gegnum námið, þær væru báðar fjarnemar en hefðu valist saman í hópverkefni og strax myndað góð tengsl. Í framhaldinu hefðu þær unnið fleiri verkefni saman og valið sömu áfangana til að geta verið samferða í náminu. Nú væru þær búnar að heimsækja hvora aðra, þó búandi á sitt hvoru landshorninu, þær hafi farið saman erlendis og spjalla saman á hverjum degi.
Við athöfnina söng Ronja Helgadóttir, fyrrum nemandi skólans, tvö jólalög við undirleik Ave Kara Sillaots. Myndir