Áætlun Menntaskólans á Tröllaskaga gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi


Efnisyfirlit

Skilgreiningar og birtingarform                             

Starfsfólk og nemendur Menntaskólans á Tröllaskaga taka skýra afstöðu gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og öðru ofbeldi. Tekin er skýr afstaða til þess að slík hegðun er ekki liðin á vinnustaðnum og telst brot á starfsskyldum. Lögð er áhersla á að allir njóti virðingar í námi og starfi og fái að njóta sín í öllum samskiptum. Skulu gildi Menntaskólans, frumkvæði, sköpun og áræði, höfð að leiðarljósi í öllum samskiptum auk gagnkvæmrar virðingar, trausts, jafnræðis og uppbyggilegrar endurgjafar.

Starfsfólk skólans skal sérstaklega vera meðvitað um að vakni grunur um einelti, kynbundna eða kynferðislega áreitni eða ofbeldi innan skólans ber því skylda til að koma málum strax í viðeigandi farveg samkvæmt stefnu þessari.

Ef málið varðar nemenda eða nemendur yngri en 18 ára ber að huga að tilkynningaskyldu til barnaverndar skv. barnaverndarlögum nr. 80/2002. Ef málið fer í formlega vinnslu innan veggja skólans skulu foreldar umrædds nemanda eða nemenda yngri en 18 ára alltaf upplýstir.

Skilgreiningar og birtingarform

Almennt um einelti, áreitni og ofbeldi

Birtingarmyndir eineltis, áreitni og ofbeldis eru margvíslegar. Þær geta falist í orðum, látbragði, óvelkominni snertingu eða verið rafrænar, til dæmis á samfélagsmiðlum eða í netsamskiptum.



Einelti

Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.



Kynbundin áreitni

Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.




Kynferðisleg áreitni

Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.



Ofbeldi

Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis.


Kynferðisbrot

Kynferðisbrot er samheiti hegningarlagabrota sem á einhvern hátt varða kynfrelsi fólks.

Hér er átt við brot þar sem gengið er gegn sjálfsákvörðunarrétti fólks varðandi eigið kynlíf, frelsi og friðhelgi. Dæmi um slík brot eru kynferðismök án samþykkis, kynferðisleg áreitni, dreifing og miðlun efnis af nekt og kynferðislegri háttsemi án samþykkis þess sem efnið er af, sifjaspell, samræði við ungmenni (sjá lögin), vændi, lostugt athæfi sem særir blygðunarsemi, klám og framleiðsla og dreifing á barnaníðsefni.

Ofbeldisbrot

Ofbeldisbrot eru hér samheiti hegningarlagabrota sem á einhvern hátt varða brot gegn friðhelgi einkalífsins, ærumeiðingar eða líkamsmeiðingar.


Dæmi um slík brot eru hótanir, ofsóknir, líkamsárásir og líkamsmeiðingar (sjá lögin).


Þolandi

Sá sem telur sig verða fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi eða ótilhlýðilegri háttsemi.


Gerandi

Sá sem kvörtun um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða ótilhlýðilega háttsemi beinist að.

Forvarnir

Það er hlutverk nemenda og starfsfólks að lágmarka hættu á einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi í skólanum.

Stjórnendur skulu ganga á undan með góðu fordæmi og sýna nemendum og starfsfólki tillitssemi, virðingu og umburðarlyndi og stuðla að góðum starfsanda, fylgjast með samskiptum nemenda og starfsfólks og taka á ágreiningsmálum.

Skólameistari tryggir að reglulega fari fram áhættumat skv. 4. gr. reglugerðar nr. 1009/2005 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Allir nemendur og allt starfsfólk eiga að þekkja og virða stefnu Menntaskólans á Tröllaskaga gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi og vera meðvitað um hegðun sína og stuðla að því að tekið sé á ágreiningsmálum.

Starfsfólk og nemendur ættu að benda á það sem betur má fara í skólanum og stuðla að jákvæðri skólamenningu sem byggist á trausti og gagnkvæmri virðingu. Stjórnendur bera ábyrgð á því að áætlunin sé höfð í hávegum og að annað hvert ár sé hún uppfærð, boðið sé árlega upp á símenntun starfsfólks um viðfangsefnið sem og fræðslu til nemenda.

Niðurstöður úr könnunum um líðan starfsfólks, kennslukönnunum og Framhaldsskólapúlsinum eru nýttar í vinnu gegn einelti, áreitni og ofbeldi í skólanum. Þar eru lykilaðilar innan skólans: heilsu- og forvarnarteymi, fagteymi ofbeldismála og sjálfsmatsteymi.

Í námsframboði skólans skal leitast við að hafa áfanga í boði á hverri önn skv. aðalnámskrá framhaldsskóla sem leggja áherslu á öryggi, samskipti og mörk, kynheilbrigði, jákvæða sjálfsmynd og geðrækt.

Einelti

Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Einelti er einstaklingsbundin upplifun. Einelti er alvarlegt mál sem stjórnendum og samstarfsfólki ber skylda til að taka á. Kvörtunum um einelti þarf alltaf að taka alvarlega.

Dæmi um birtingarmyndir eineltis:

  • Baktal, slúður
  • Særandi orð
  • Hörð gagnrýni
  • Einangrun, útilokun
  • Misræmi í úthlutun verkefna
  • Leyna upplýsingum
  • Skemmdarverk
  • Geðheilsan dregin í efa
  • Líkamlegt
  • Stafrænt

Starfsfólk og starfstengdar athafnir

Hér koma dæmi um hvers konar athafnir eða atferli getur verið um að ræða sem valda því að þolandi upplifir að hann sé lagður í einelti en hægt er að skipta einelti í þrjá meginþætti:

Starfstengdar athafnir
  • Þegar grafið er undan faglegri hæfni starfsmanns eða frammistöðu hans
  • Þegar starfsmaður er hafður undir stöðugu eftirliti og leitað eftir mistökum
  • Þegar starfs- eða verkefna tengdum upplýsingum er haldið frá starfsmanni
  • Þegar geðþóttakenndar breytingar verða á verksviði starfsmanns
  • Ábyrgð er tekin af starfsmanni án þess að það sé rætt við hann
Félagsleg útskúfun
  • Starfsmaður er markvisst sniðgenginn og útilokaður frá starfshópnum og félagslífinu
Særandi stríðni og niðurlæging
  • Niðrandi athugasemdir eða dylgjur
  • Endurteknar skammir eða hótanir
  • Slúður og baktal
  • Endurtekin stríðni

Vísbendingar um einelti

Mikilvægt er að nemendur, foreldrar og kennarar séu meðvitaðir ef breytingar verða á líðan og hegðun einstaklings og ber að skoða hvort hugsanlegt sé að viðkomandi upplifi að hann verði fyrir einelti. Afleiðingar geta lýst sér sem almenn vanlíðan og því mikilvægt að ræða við hlutaðeigandi um hvað hann telji að valdi breyttri líðan eða hegðun. Líkamleg og sálræn einkenni geta komið fram og þróast út í mjög alvarleg einkenni sé ekkert að gert.

Sálrænar afleiðingarnar- dæmi:
  • Kvíði eða þunglyndi
  • Miklar skapsveiflur
  • Ótti eða örvænting
  • Minnimáttarkennd eða minnkað sjálfsálit
  • Andúð á skóla eða vinnu
  • Félagsleg einangrun eða öryggisleysi
  • Biturð eða hefndarhugur
  • Sjálfsvígshugleiðingar
Líkamlegar afleiðingar- dæmi:
  • Svefnleysi eða svefnórói
  • Höfuðverkur eða vöðvabólga
  • Hjartsláttartruflanir, skjálfti eða svimi
  • Þreytutilfinning eða sljóleiki

Hafa ber í huga að það er ekki einungis sá sem verður fyrir eineltinu sem skaðast. Fjölskylda þolanda finnur oft fyrir miklu álagi þar sem afleiðingar eineltis geta haft svo víðtæk áhrif. Þar sem einelti er látið viðgangast í skóla eða á vinnustað getur það einnig haft umtalsverð áhrif á þá sem þar starfa og mótað þann vinnuanda sem ríkir. Það er því ábyrgð allra þeirra sem verða varir við einelti af einhverju tagi að koma ábendingum þar um til réttra aðila til að hægt sé að vinna með málið.

Áreitni

Áreitni er ágengni og átroðningur. Það að sýna einhverjum óvelkomna athygli og óska eftir samskiptum við einhvern sem kærir sig ekki um slíkt. Áreitni getur verið bæði kynferðisleg og/eða kynbundin.

Kynferðisleg áreitni

Í 2. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 er að finna orðskýringar og skilgreiningar með lögunum en þar segir:
Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Sérhver einstaklingur verður sjálfur að meta hvaða framkomu hann umber og frá hverjum. Það er alltaf huglægt mat hvort framkoman er kynferðisleg eða ekki.

Daður telst ekki vera kynferðisleg áreitni nema hegðunin sé óvelkomin, hvorki gagnkvæm né á jafnréttisgrundvelli.

Dæmi um birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni:

  • Að fara inn á persónulegt rými einstaklings, eins og að halla sér yfir eða króa af
  • Óvelkomin snerting, káf og þukl
  • Óvelkomin faðmlög, kossar, klapp eða strokur
  • Líkamlegt ofbeldi til dæmis að slá, hrista eða rassskella
  • Óvelkomið kynferðislegt eða kynbundið grín, stríðni, spurningar eða athugasemdir varðandi klæðnað eða útlit starfsfólks
  • Persónulegar spurningar um kynlíf og þrýstingur um kynferðislegan greiða
  • Einstaklingur er beðinn um að klæðast á óviðeigandi hátt
  • Boð á stefnumót í óþökk einstaklings
  • Óvelkomnar kynferðislegar augngotur eða önnur hegðun sem gefur eitthvað kynferðislegt til kynna
  • Það að hengja upp veggspjöld, dagatöl eða myndefni sem inniheldur kynferðislegt efni eða niðurlægja annað kynið
  • Senda eða sýna kynferðislegt efni til dæmis í gegnum samskiptaforrit

Kynbundin áreitni

Í 2. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 er að finna orðskýringar og skilgreiningar með lögunum en þar segir:

Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Dæmi um kynbundna áreitni getur verið:

  • Óviðeigandi talsmáti eða framkoma sem tengist kyni og kynhneigð fólks
  • Niðurlæging, til dæmis vegna aldurs eða kyns
  • Lítillækkandi athugasemdir um kyn einstaklings og getu hans/hennar/þeirra.
  • Almennt neikvætt viðhorf um ákveðið kyn á vinnustaðnum

Ofbeldi

Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður. Einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd frelsissvipting.

Ofbeldi á sér margar birtingarmyndir og getur þannig verið andlegt, líkamlegt, kynferðislegt, eltihrellir, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og ofbeldi sem felur í sér mismunun.

Dæmi um ofbeldi:

  • Þegar einhver meiðir, til dæmis sparkar, lemur, kýlir, hrindir eða klípur
  • Hótun um að meiða
  • Kynferðislegt ofbeldi er þegar einhver káfar á öðrum einstaklingi, fær hann til að gera eitthvað kynferðislegt sem hann vill ekki gera
  • Fjármunum haldið frá fólki og eða þeir notaðir í ósamræmi við vilja fólks
  • Kynferðisleg áreitni með orðum og látbragði er líka ofbeldi
  • Þegar tæki eða tækni eru notuð til að fylgjast með öðrum einstaklingi, ógna, áreita eða niðurlægja
  • Einangra viðkomandi frá öðrum einstaklingi, fylgjast með eða stjórna samskiptum við aðra
  • Þegar tæki eða tækni, svo sem sími, spjaldtölva, tölva eða samfélagsmiðlar eru notaðir til að að áreita, beita ofbeldi, ofsækja, niðurlægja eða ógna
  • Hunsun, að uppnefna fólk og/eða öskra á það

Í 2. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 er að finna orðskýringar og skilgreiningar með lögunum en þar segir:
Kynbundið ofbeldi: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Kynferðis- og ofbeldisbrot

Kynferðis- og eða önnur ofbeldisbrot líðast ekki innan skólans. Allar tilkynningar um slík brot skal taka alvarlega og óheimilt er að afgreiða ætluð brot innan skólans. Með hugtakinu kynferðisbrot er átt við þá háttsemi sem lýst er refsiverðri í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í barnaverndarlögum nr. 80/2002. Með hugtakinu ofbeldisbrot er lýst refsiverðum brotum skv. XXIII. og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ef nemandi verður fyrir kynferðis- eða ofbeldisbroti í skólastarfi

Ef grunur vaknar um að barn eða ungmenni hafi orðið fyrir kynferðisbroti eða öðru ofbeldisbroti í skólastarfi skal það tilkynnt til án tafar. Ef meintur gerandi er starfsmaður í starfi skal hafa beint samband við skólameistara.

Tryggja þarf öryggi barns/ungmennis.

Skóli gerir barnaverndaryfirvöldum (ef nemandi yngri en 18 ára) og lögreglu viðvart í síma 112.

Skólinn gerir fagteymi ofbeldismála Menntaskólans á Tröllaskaga og skólameistara skólans einnig viðvart.

Skólameistari eða fagteymi ofbeldismála Menntaskólans á Tröllaskaga skal hafa samband við foreldra/forráðendur ungmennis (ef ungmenni er yngra en 18 ára) og greina þeim frá atburðum – nema að barnaverndaryfirvöld eða lögregla gefi fyrirmæli um annað.

Sé langt um liðið síðan meint brot átti sér stað getur brotið verið fyrnt. Slík brot skal samt sem áður tilkynna til sömu aðila. Barnaverndarnefnd getur tekið slík mál til skoðunar á grundvelli 35. gr. barnaverndarlaga og komið með tillögur að niðurstöðu.

Ef starfsmaður er grunaður um að hafa beitt barn eða ungmenni kynferðislegu ofbeldi eða öðru ofbeldisbroti skal skólameistari ávallt leysa viðkomandi tímabundið frá starfi á meðan rannsókn máls stendur yfir. Þegar niðurstöður liggja fyrir hjá viðeigandi yfirvöldum (lögreglu og/eða barnaverndarnefnd eða öðrum aðilum) skal tekin ákvörðun um framhaldið, þ.e. hvort meintur gerandi fái að starfa áfram innan skólans eða ekki. Leita skal álits barnaverndaryfirvalda, ef við á, og fagráðs ofbeldismála áður en viðkomandi er heimilað að koma aftur til starfa innan skólans.
Eftir að mál hefur verið tilkynnt til réttra aðila sjá barnaverndaryfirvöld og lögregla alfarið um meðferð málsins og skal skólinn ekki hafa önnur afskipti af máli en óskað er eftir af barnaverndaryfirvöldum og lögreglu.
Skólameistari fylgir því eftir að mál fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt landslögum og verklagsreglum um meðferð kynferðisbrotamála/ofbeldismála hjá skólanum. Fagteymi ofbeldismála Menntaskólans á Tröllaskaga sér einnig um að taka á móti umkvörtunum þolenda, leiðbeina þeim um málsmeðferð og sjá til þess að þeir fái stuðning eftir því sem við á hverju sinni.

Ef starfsmaður verður fyrir kynferðis- eða ofbeldisbroti í skólastarfi

Ef grunur vaknar um að starfsmaður skólans hafi orðið fyrir kynferðisbroti eða ofbeldisbroti í skólastarfi skal það tilkynnt til skólameistara án tafar.

Skólameistari gerir lögreglu viðvart í síma 112.

Ef einhver hlutaðeigandi er yngri en 18 ára skal barnaverndaryfirvöldum einnig gert viðvart.

Kynferðis- eða ofbeldisbrot utan skólastarfs

Í hvert sinn sem upp kemur innan veggja skólans grunur um kynferðis- eða ofbeldisbrot utan skólastarfs eða langt er um liðið síðan ætlað brot átti sér stað þarf að meta upplýsingarnar. Sé langt um liðið síðan meint brot átti sér stað eru líkur því að brot geti verið fyrnt. Slík brot skal samt sem áður tilkynna til sömu aðila. Barnaverndarnefnd getur tekið slík mál til skoðunar á grundvelli 35. gr. barnaverndarlaga og komið með tillögur að niðurstöðu.
Ef þolandi er starfsmaður skólans eða nemandi eldri en 18 ára skal hann studdur til þess að taka ákvörðun um aðgerðir á sínum forsendum.
Ef málið varðar nemendur yngri en 18 ára fer um málið skv. barnaverndarlögum og skal ákvörðun um tilkynningu til barnaverndaryfirvalda vera tekin af skólameistara og eftir atvikum í samstarfi við fagteymi ofbeldismála Menntaskólans á Tröllaskaga. Alltaf skal hafa hagsmuni nemandans að leiðarljósi við slíka ákvörðunartöku. Heimilt er að hafa samband við Barnaverndarstofu og fá ráðleggingar hjá þeim varðandi það hvort mál sé þess efnis að tilkynna þurfi það til barnaverndarnefndar.

Viðbragðsáætlun

Allir starfsmenn Menntaskólans á Tröllaskaga eiga að þekkja viðbragðsáætlun þessa, vera meðvitaðir um hegðun sína og stuðla að því að tekið sé á ágreiningsmálum strax. Stjórnendur skulu kynna viðbragðsáætlunina fyrir nýju starfsfólki og sjá til þess að hún sé höfð í hávegum á vinnustaðnum. Áætlunin skal rifjuð upp reglulega á starfsmannafundum og vera aðgengileg öllum.

Ferli vegna nemenda

Tilkynning

Nemandi sem verður fyrir eða verður vitni að einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi skal tilkynna um atvikið, einnig geta foreldrar og starfsfólk skólans tilkynnt:

  • Í gegnum tilkynningahnapp á heimasíðu skólans
  • Til náms- og starfsráðgjafa
  • Til kennara skólans
  • Til stjórnenda skólans
  • Til annars starfsfólks skólans

Ef ofangreindir aðilar fá vitneskju um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða ofbeldi skulu þeir strax bregðast við samkvæmt viðbragðsáætlun. Almennt fer náms- og starfsráðgjafi með rannsóknarathugun máls en hann getur leitað til fagteymis ofbeldismála Menntaskólans á Tröllaskaga meðan á óformlegri vinnslu stendur.
Ef málið varðar nemenda eða nemendur yngri en 18 ára ber að huga að tilkynningaskyldu til barnaverndar skv. barnaverndarlögum nr. 80/2002. Ef málið fer í formlega vinnslu (staðfestur grunur) eru foreldrar alltaf upplýstir.

Óformleg vinnsla
ef upp kemur grunur en ekki búið að setja í formlegan farveg eða vinnslu
  • Taka hvert mál til athugunar. Mjög oft fara vísbendingar fram hjá fagfólki, þrátt fyrir bestu fyrirætlanir og oft kraumar eitthvað undir yfirborðinu meðal einstaklinganna eða hópsins í heild.
  • Fylgjast sérstaklega með samskiptum milli viðkomandi aðila, og hópsins í heild, í kennslustund og utan hennar áður en ákvörðun um framhaldið er tekið. Hversu lengi er fylgst með áður en tekin er ákvörðun um framhaldið ræðst af alvarleika málsins. Mikilvægt er að vinna málið hratt en faglega.
  • Skoða þarf sérstaklega hvernig rafrænum samskiptum er háttað, bæði á milli viðkomandi aðila sem og hópsins í heild. Það fer gjarnan fram hjá fullorðnum en getur haft mikil neikvæð áhrif á samskipti.
  • Ræða óformlega við nemendur (án þess að nefna orðið einelti, áreitni eða ofbeldi eða ákveðna aðila/aðstæður/samskipti), bæði þá nemendur sem um ræðir og aðra í hópnum.
  • Ræða óformlega við foreldra þeirra (sé um að ræða ungmenni yngri en 18 ára) sem við á (án þess að nefna orðið einelt, áreitni eða ofbeldi).
  • Skoða samskipti í hópnum heildrænt.
  • Leggja fyrir tengslakönnun ef þurfa þykir.
  • Ráðfæra sig við aðra fagaðila, t.d. kennara, stjórnendur og annað starfsfólk.
  • Halda skráningu yfir það sem er gert.
  • Taka ákvörðun um framhaldið:
  1. Málið metið einfalt í vinnslu og/eða liggur ljóst fyrir -> Vinna með samskipti og líðan eftir því sem þurfa þykir, einstaklinga sem og hópinn. Upplýsa foreldra eftir því sem við á. => Ábyrgð: Náms- og starfsráðgjafi

  2. Málið metið flóknara og/eða liggur ekki ljóst fyrir -> Setja málið í formlega vinnslu, í samráði við foreldra viðkomandi nemanda (ef yngri en 18 ára) og nemandann sjálfan.=> Ábyrgð: fagteymi ofbeldismála Menntaskólans á Tröllaskaga

Formleg vinnsla
þegar formleg tilkynning kemur inn og/eða ákvörðun tekin um formlega vinnslu í fagteymi ofbeldismála Menntaskólans á Tröllaskaga

Mikilvægt óháð þrepi

  • Hafa skýrt hverjir sitja í teymi sem tekur mál í formlega vinnslu.
  • Halda skráningu yfir allt sem gert er.
  • Hafa gátlista sem hægt er að fylgja.
  • Hafa mjög skýrt hver er ábyrgðaraðili yfir málinu og hverju verki fyrir sig, t.d. halda utan um skráningar, samskipti við foreldra o.þ.h.
  • Skráning í skjalavistunarkerfi skólans
  • Hafa skýra tímalínu á hverju þrepi fyrir sig, sérstaklega er mikilvægt að hafa hámarkstíma á könnunarþrepi. Upplýsa foreldra um tímalínu og ef fyrirséð er að hún breytist. Mikilvægt er að vinna málið hratt en faglega.
  • Upplýsa nemendur (aðila máls) og foreldra reglulega (ef aðilar yngri en 18 ára).
  • Hafa samráð við nemendur, bæði þá sem myndu flokkast sem meintir þolendur og meintir gerendur.
  • Hafa samráð við foreldra, bæði þolenda og gerenda.
  • Upplýsa starfsfólk skólans, áhersla á að fylgjast með, safna upplýsingum og grípa inn í ef þurfa þykir.
  • Mikilvægt er að hengja sig ekki í skilgreiningar heldur einblína á að leysa málið með hag og líðan nemenda að leiðarljósi.

Könnunarþrep/grunur um einelti, áreitni eða ofbeldi

  • Öll mál eru tekin til athugunar, þrátt fyrir að þau líti ekki út fyrir að vera alvarleg. Það er mjög oft sem eitthvað fer fram hjá fagfólki þrátt fyrir bestu fyrirætlanir og mjög oft kraumar eitthvað undir yfirborðinu.
  • Skoða þarf sérstaklega hvernig rafrænum samskiptum er háttað, bæði á milli viðkomandi aðila sem og hópsins í heild. Það fer gjarnan fram hjá fullorðnum en getur haft mikil neikvæð áhrif á samskipti.
  • Upplýsa foreldra málsaðila og boða á fund eins fljótt og auðið er. Athuga að í einstaka tilvikum getur verið nauðsynlegt að fagfólk geti fylgst með samskiptum í 1-2 daga áður en foreldrar/viðkomandi nemendur eru upplýstir, til að koma í veg fyrir að nemendur setji upp sparihegðun rétt á meðan verið er að kanna málið, með því skilyrði að öryggi sé að sjálfsögðu tryggt og gripið inn í ef þarf.
  • Ræða við málsaðila einstaklingslega.
  • Ræða við samnemendur, ef það er metið hjálplegt, einstaklingslega.
  • Skoða málið heildrænt, meta skólabraginn og menninguna í kringum málsaðila.
  • Skoða félagslega stöðu allra málsaðila, meintra gerenda sem og þolenda.
  • Leggja tengslakönnun fyrir hópinn.
  • Koma strax í veg fyrir þætti sem hægt er að stoppa eins og t.d. áreiti í kennslurými skólans, mötuneyti, búningsklefa o.fl.
  • Senda strax skýr skilaboð um að óæskileg hegðun sé ekki liðin.

Lausnaþrep/aðgerðaáætlun

  • Hafa samráð við foreldra (ef málið varðar nemanda eða nemendur yngri en 18 ára) og nemendurna sjálfa varðandi mögulegar lausnir.
  • Leggja áherslu á að allir aðilar fái tækifæri til að taka ábyrgð á eigin hegðun og komast frá málinu með reisn.
  • Vinna með skólabraginn og menninguna í kringum einstaklingana.
  • Finna viðeigandi leiðir og úrræði til að vinna með líðan og hegðun málsaðila, óháð alvarleika málsins, hvort sem það er innan skólans eða utan, í samráði við foreldra og nemendurna sjálfa. Hugsa út fyrir kassann.
  • Þó vandi birtist að mestu utan skólans, t.d. með rafrænum hætti, þá er sá vandi nátengdur skólanum, ef um er að ræða skólafélaga.
  • Muna að sama hvað vandinn heitir þarf að vinna með hann, vinna með samskipti og líðan eftir því sem þarf. Einstaklinga og hópinn í heild.

Eftirfylgni

  • Halda stöðufundi með málsaðilum og foreldrum (ef yngri en 18 ára) með reglulegu millibili, þó að það virðist ganga vel. Mikilvægt er að sofna ekki á verðinum.
  • Taka mál aftur upp á lausnaþrep séu aðgerðir ekki að skila árangri.
  • Ákveða hversu lengi haft verður sérstakt aðhald og eftirfylgd áður en metið verður hvort óhætt sé að loka málinu.
  • Ákveða með hvaða hætti máli verður formlega lokað þegar ekki er þörf á frekara aðhaldi eða inngripi.
  • Ef um einelti er að ræða sem ekki tekst að leiða til lykta með aðgerðum skólans skal málinu vísað til Fagráðs eineltismála í framhaldsskólunum: https://mms.is/fagrad-eineltismala-i-grunn-og-framhaldsskolum-0

Ferli vegna starfsfólks

Tilkynning

Starfsmaður sem verður fyrir eða verður vitni að einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi skal tilkynna um atvikið til einhvers af eftirtöldum:

  • Næsta yfirmanns
  • Trúnaðarmanns
  • Öryggistrúnaðarmanns

Ef ofangreindir aðilar fá vitneskju um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða ofbeldi skulu þeir strax upplýsa skólameistara sem bregst við samkvæmt viðbragðsáætlun. Almennt fer skólameistari með rannsókn máls en hann getur leitað lausna til utanaðkomandi fagaðila. Skólameistari ræðir við meintan þolanda um kvörtunina og metur í samvinnu við hann næstu skref. Ef skólameistari er vanhæfur til að taka að sér rannsókn máls er því strax vísað til Fagráðs eineltismála í grunn- og framhaldsskólunum eða utanaðkomandi aðila.

Óformleg málsmeðferð
  • Skólameistari gerir hlutlausa athugun á málsatvikum. Hann ræðir bæði við meintan þolanda og meintan geranda og fær upplýsingar sem eiga að varpa ljósi á aðstæður.
  • Meintum þolanda og meintum geranda er veittur stuðningur með trúnaðarsamtali af hendi skólameistara.
  • Meintum þolanda og meintum geranda er gefinn kostur á sálfræðiaðstoð á meðan rannsókn stendur yfir.
  • Skólameistari vinnur í því að koma samskiptum aftur í viðunandi horf og að öllum líði vel á vinnustaðnum.
  • Aðrir innan vinnustaðarins eru ekki upplýstir.
  • Ef niðurstaða skólameistara er sú að ástæða sé til frekari úrvinnslu er málinu vísað í formlega málsmeðferð.
Formleg málsmeðferð
Þessa leið ber að fara ef niðurstaða óformlegrar athugunar leiðir í ljós að ástæða er til frekari úrvinnslu.
Upplýsingagjöf
  • Tilkynna skal meintum geranda og meintum þolanda um að formleg úrvinnsla fari fram. Þeim skal boðið upp á sálfræðiaðstoð.
  • Næsti yfirmaður og fagteymi ofbeldismála Menntaskólans á Tröllaskaga skulu upplýst um málið eftir atvikum og taka þátt í rannsókn málsins. Aðrir skulu ekki upplýstir nema nauðsyn krefji.
Rannsókn máls
  • Rannsakandi máls gerir hlutlausa athugun á málsatvikum. Hann ræðir bæði við meintan þolanda og meintan geranda og fær upplýsingar sem eiga að varpa ljósi á aðstæður. Hann leitar upplýsinga um tímasetningar og önnur gögn ef einhver eru, svo sem tölvupósta, smáskilaboð eða annað. Hann ræðir einnig við vitni eða samstarfsfólk ef þurfa þykir.
  • Ef niðurstaða rannsóknar leiðir í ljós að einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni eða ofbeldi sé talið hafa átt sér stað þarf að ákveða hvaða aðgerða skal grípa til.
Aðgerðir
  • Skólameistari leitar lausna sem m.a. geta falist í breytingum á vinnustaðnum, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi.
  • Skólameistari vinnur í því að koma samskiptum aftur í viðunandi horf og að öllum líði vel á vinnustaðnum.
  • Ef einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni eða ofbeldi er talin hafa átt sér stað og mál telst alvarlegt skal áminna geranda eða eftir atvikum segja honum upp.
  • Láti gerandi ekki segjast eftir áminningu og viðheldur hegðun sinni leiðir það til uppsagnar hans úr starfi skv. lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Meintum geranda skal þó ávallt gefinn kostur á að skýra sína hlið áður en til svo alvarlegra ráðstafana er gripið.
  • Sé mál talið alvarlegt skal benda þolanda á að leita til lögreglu

Ef aðilar málsins eru ekki sáttir við úrlausn sinna mála innan stofnunarinnar geta þeir leitað aðstoðar stéttarfélags síns, Vinnueftirlits ríkisins eða Fagráðs eineltismála í framhaldsskólum. Ef þörf þykir á er samstarfsfélögum veittur viðeigandi stuðningur eða önnur aðstoð sem á við hverju sinni.
Skólameistari sér um að halda utan um allar upplýsingar sem koma fram, hvort sem um óformlega eða formlega leið er að ræða. Hann vistar þær í skjalavistunarkerfi skólans. Upplýsingar sem verða til og varða aðila þess skulu vera aðgengilegar viðkomandi aðilum. Tekið verður á fölskum ásökunum um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi í samræmi við starfsmanna- og stjórnsýslulög.

 Eftirfylgni
Skólameistari fylgist áfram með líðan málsaðila og aðstæðum. Skólameistara ber að fylgjast með aðstæðum og líðan gerenda og þolenda og veita viðeigandi upplýsingar, aðstoð og hjálp. Stuðningur við þolendur og gerendur þarf að miðast við hversu alvarlegt atvikið hefur verið og mun Menntskólinn á Tröllaskaga koma til aðstoðar með því að benda á ráðgjafa, geðlækni eða sálfræðihjálp ef þess gerist þörf. Kanna þarf síðan árangur aðgerða og endurskoða þær ef ástæða þykir.

Gildistími og ábyrgð
Viðbragðsáætlun er endurskoðuð á tveggja ára fresti og í samræmi við reynslu af vinnslu mála sem tilkynnt er um á vinnustaðnum.
Fagteymi ofbeldismála Menntaskólans á Tröllaskaga heldur utan um gerð þessarar stefnu og ábyrgist uppfærslu hennar.
Uppfærslu stefnunnar skal bera undir nemendur og starfsfólk skólans.

Áætlunin var uppfærð 8. nóvember 2022

Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Gagnlegt efni

112.is - kynferðilegt ofbeldi og áreitni: https://www.112.is/kynferdislegt-ofbeldi-og-areitni

112.is - netöryggi: https://www.112.is/netoryggi

112.is - ofbeldi - fræðsla fyrir unglinga: https://www.112.is/unglingar-fraedsla

112.is - ofbeldi í nánum samböndum: https://www.112.is/ofbeldi

112.is - stoppum ofbeldishegðun: https://www.112.is/komum-i-veg-fyrir-ofbeldi

112.is - úrræði gegn ofbeldi landsbyggðin: https://www.112.is/urraedi

Aflið. Samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi: https://aflidak.is/

Allir eiga rétt: kennsluefni um réttindi, skyldur, samstöðu og umburðarlyndi: https://www1.mms.is/unicef/

Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna. https://www.barnasattmali.is/

Bjarmahlíð - miðstöð fyrir þolendur ofbeldis: https://bjarmahlid.is/

Býrð þú við ofbeldi? bæklingur á íslensku, ensku og pólsku. https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/Rit_2013/VEL-Ofbeldi-NET.pdf

Ingólfur V. Gíslason (2008). Ofbeldi í nánum samböndum - orsakir- afleiðingar- úrræði. Reykjavík: Gutenberg

Jafnréttisstofa. Netnámskeið fyrir fagfólk um heimilisofbeldi: https://www.jafnretti.is/von/fraedsla/netnamskeid

Jafnréttisstofa. Útvarpsþátturinn Kverkatak:þar er rýnt í heimilisofbeldi, eðli þess, áhrif og afleiðingar. https://www.jafnretti.is/von/fraedsla/utvarpsthatturinn-kverkatak

Jafnréttisstofa. Vitundarvakningar myndbönd um heimilisofbeldi: https://www.jafnretti.is/von/upplysingar/vitundarvakningar-myndbond

Karen Nóadóttir (2021). Hvað kom fyrir þig? Áfallamiðuð nálgun í framhaldsskólum. https://skemman.is/handle/1946/39041

Kvennaathvarf: https://www.kvennaathvarf.is/

Leiðin áfram. Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi. Myndbönd fyrir brotaþola, farið í ferlið innan réttarvörslukerfisins: https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/malefni-barna/ofbeldi-gegn-bornum-fraedsluefni/leidin-afram/

Mannasiðir. Kvikmynd. https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/mannasidir/27634/87h791

Ofbeldi gegn börnum - hlutverk skóla. Handbók fyrir starfsfólk: https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/ofbeldi_gegn_bornum/

Sjúkást. Síða Sígamóta: https://sjukast.is/

Stopp ofbeldi! safnvefur með kennsluefni: https://stoppofbeldi.namsefni.is/framhaldsskolinn/

Vinnueftirlitið. Félagslegt vinnuumhverfi: https://vinnueftirlitid.is/vinnuumhverfi/oryggi-heilbrigdi/felagslegir-og-andlegir-thaettir

Heimildir

Almenn hegningarlög nr. 19/1940. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1940019.html

Barnaverndarlög nr. 80/2002. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2002080.html

Fagráð eineltismála í framhaldsskólunum: https://mms.is/fagrad-eineltismala-i-grunn-og-framhaldsskolum-0

Gegn einelti: https://gegneinelti.is/

Leiðbeiningar fyrir starfsfólk: Enginn á að sætta sig við einelti, áreitni, ofbeldi. Bæklingur Vinnustaðaeftirlitsins: https://wp.vinnueftirlitid.is/wp-content/uploads/2021/09/enginn-a-ad-saetta-sig-vid-einelti-areitni-ofbeldi.pdf

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020: https://www.althingi.is/altext/151/s/0676.html

Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996: https://www.althingi.is/lagas/nuna/1996070.html

Reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum: https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=a2ce9f38-25e2-4cdf-9ceb-db345e791f80

SÆTTUM OKKUR EKKI VIÐ einelti, áreitni, ofbeldi. Bæklingur Vinnustaðaeftirlitsins: https://wp.vinnueftirlitid.is/wp-content/uploads/2021/09/saettum_okkur_ekki_vid_einelti_areitni_ofbeldi.pdf

Stopp ofbeldi:  https://stoppofbeldi.namsefni.is/framhaldsskoli/

Vinnueftirlitið, Félagslegt umhverfi: https://vinnueftirlitid.is/vinnuumhverfi/oryggi-heilbrigdi/felagslegir-og-andlegir-thaettir

 

Samþykkt 8. nóvember 2022