Kynning mynd GK
Heyra má dönsku á göngum skólans þessa dagana. Hér er staddur þrjátíu manna hópur frá Tækniskólanum EUC í Næstved og Köge á Sjálandi. Hópurinn vinnur með tuttugu og fimm MTR-nemendum að því að segja sögur á stafrænu formi. Hugmyndin er að þeir kynnist menningararfi eigin lands og samstarfslandsins ásamt því að æfa sig að nota mismunandi tæki og tól til að segja sögur með aðstoð stafrænnar tækni. Nemendur fengu ýmsar þjóð- og munnmælasögur til að nota sem kveikjur. Til dæmis Gilitrutt, Nykurtjörn í Svarfaðardal og söguna af Teit og Siggu sem tengist Lágheiði. Þátttakendur fengu sögurnar í enskri þýðingu fyrir nokkrum vikum og hafa því haft tækifæri til að kynna sér þær og leita leiða til að segja þær á stafrænu formi. Nemendur vinna að þessu í sjö hópum og blandast heimamenn og gestir nokkurnvegin til helminga. Flestir hóparnir vinna aðeins með eina sögu. Vinnan hófst á mánudag og lýkur á fimmtudag með sýningu á afurðunum og sameiginlegum kvöldverði sem foreldrum og forráðamönnum MTR-nemanna verður boðið til auk starfsmanna skólans.
MTR og Tækniskólinn EUC fengu Nordplusstyrk að upphæð fjórar milljónir króna til þessa verkefnis. Danski hópurinn kom til landsins á laugardag og notaði sunnudaginn til að skoða sig um á Akureyri, heimsækja Jólagarðinn á Hrafnagili og fleira. Hópur frá MTR heimsækir Sjáland á vorönninni.