Sekkjapipuleikari mynd Ida Semey
Markviss stefna Skota í notkun upplýsingatækni í skólastarfi vakti athygli kennara MTR sem sóttu EcoMediaEurope ráðstefnu í Glasgow í síðustu viku. Framtíðarsýn og stefna Skotanna er mótuð í samstarfi skóla og annarra menntastofnana við fulltrúa atvinnulífsins. Margt af því sem fram kom í fyrirlestrum og kynningum þótti MTR-fólki lærdómsríkt. Ekki síst framlag Kenji Lamb, stafræns ráðgjafa sem sagði frá ókeypis öppum og forritum til notkunar við nám og kennslu. Einnig má nefna upplýsingar um gagnagrunna þar sem nálgast má margvíslegt námsefni í forritun. MTR-kennararnir kynntu ýmsa tækni og aðferðir sem notuð eru hér í skólanum. Til dæmis hvernig upplýsingatækni hefur nýst á starfsbraut til að hjálpa nemendum að taka þátt í erlendu samstarfi með öðrum nemendum skólans. Kennari í ferðalandafræði sagði frá þeim áfanga og notkun upplýsingatækni þar. Áheyrendum þótti merkilegt hve frjálsræði er mikið í nýja íslenska framhaldsskólakerfinu til að skipuleggja ólíka áfanga. Til dæmis með svæðisbundnu efni sem höfðar beint til nemenda í ákveðnum skólum. Einnig greindi fjarkennari í listljósmyndun sem býr á Höfn í Hornafirði frá þeirri tækni sem hann notar í sínu starfi. Eins og sjá má af þessari upptalningu voru kynningar MTR-kennara fjölbreyttar og má að lokum geta þess að goðin í hinum forna átrúnaði þjóðarinnar fengu sinn sess. Frá þeim var sagt og síðan greindi kennari í íslensku frá því hvernig upplýsingatækni er notuð til að koma goðafræðinni til nemenda á skapandi hátt.