Meme

Meme (borið fram “mím”) er hverskyns menningarlegt fyrirbæri eða hugmyndir sem dreifast meðal fólks og á milli kynslóða. Á íslensku er þetta stundum kallað “jarm,” vegna íslensks framburðar á enska orðinu. Hugtakið kemur frá þróunarlíffræðingnum Richard Dawkins sem líkti þeim við gen. Á undanförnum árum hefur fyrirbærið þó meira átt við um ýmisskonar myndir þar sem texta er bætt við og dreifast svo manna á milli á netinu og tjá ýmiskonar húmor eða tilfinningar.

Við MTR hefur verið leikið með meme í hinum svokölluðu Menntaleikum. Þeir ganga út á leikjavæðingu, en það er aðferðafræði sem notar aðferðir leikja í öðru samhengi (til dæmis kennslu) til að auka þátttöku og áhuga. Nemendur geta til dæmis búið til sín eigin meme, eða öllu heldur sínar eigin útgáfur af memes, og unnið sér með því stig í leikunum. Þátttaka í leikunum er ekki til einkunnar og er engin skylda, en nemendur geta þó notað stigin til að opna nýjar tilraunir við verkefni sem þeim gekk kannski illa í. Þannig styðja leikarnir við helstu kennsluaðferðir skólans, símat og leiðsagnarmat. Meme eru líka tilvalin leið fyrir nemendur til að tjá tilfinningar sínar um námið og skólalífið almennt á óformlegan hátt sem er þeim þó afar kunnugur. Frekari fróðleik um meme má finna á Vísindavef Háskóla Íslands.

Hér eru nokkur af þeim meme sem nemendur bjuggu til skólaárið 2019 - 2020.