Aðdragandi

Framhaldsdeildir við utanverðan Eyjafjörð

Framhaldsdeildir við utanverðan Eyjafjörð voru í mörg ár starfræktar í Ólafsfirði og á Dalvík. Í Ólafsfirði var lögð áhersla á að gefa nemendum kost á að ljúka fyrsta hluta náms í framhaldsskóla í heimabyggð og það sama var upp á teningnum á Dalvík, að viðbættu námi í sjávarútvegsfræðum.
Gagnfræðaskólinn í Ólafsfirði var settur á stofn árið 1963 og sex árum síðar hófst bygging húsnæðis skólans, sem nú hýsir starfsemi Menntaskólans á Tröllaskaga. Kennsla hófst í Gagnfræðaskólahúsinu í janúar 1972. Í kjölfar þess að landspróf og gagnfræðapróf voru aflögð árið 1976 var strax mikill áhugi á því að stofna til framhaldsdeildar við Gagnfræðaskólann og má segja að henni hafi verið ýtt úr vör skólaárið 1977-1978. Áður höfðu þó verið kenndir áfangar í nokkrum iðngreinum. Framhaldsdeild GÓ var með svipuðu sniði meira og minna til 2000, boðið var upp á bóknám, sambærilegt við nám á fyrsta ári í framhaldsskóla. Einnig var boðið upp á fornám ætlað nemendum er höfðu ekki náð lágmarkseinkunn í grunnskóla í kjarnagreinum. Raunar var framhaldsdeildin ekki starfrækt veturinn 1986-1987 þegar of fáir nemendur innrituðu sig til náms. Þann vetur var Gagnfræðaskólinn með fyrsta stigs vélavarðanám og tveggja anna skipstjórnarnám.