Nánari lýsing
Verkefnavinna þar sem nemendur velja sér eigið viðfangsefni.
Fjöldi framhaldsskólaeininga: 5
Undanfari: Enginn
Lýsing á efni áfangans
Áfanginn miðar að því að opna fyrir sköpunarkraft og hugmyndaauðgi nemenda og gera þá óhrædda
við að prófa, framkvæma og þróa hugmyndir sínar án þess að hræðast útkomuna.
Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda sem meðal annars felst í því að skipuleggja verkefni
byggð á eigin hugmynd. Verkefnin geta verið ýmsir viðburðir svo sem tónleikar, íþróttamót, ýmis útgáfa, almennar
kannanir eða kannanir á viðskiptatækifærum svo eitthvað sé nefnt. Í raun er þessu lítil takmörk sett önnur en þau að
verkefnin séu metin hæf af kennara.
Farið verður í grunnatriði sem hafa verður í huga við skipulagningu verkefna, svo sem verkáætlun,
kostnaðaráætlun og markaðsetningu. Lögð er áhersla á hópavinnu og að verkefnishugmynd hópsins sé raunhæf. Nemendur koma
sér saman um eina verkefnishugmynd í hverjum hóp. Þeir þurfa að skilgreina hana, skipuleggja og markaðssetja ef verkefnið krefst þess. Nemendum er
í sjálfsvald sett hvort þeir framkvæma verkefnið. Í lokin þurfa hóparnir að kynna vinnu sína fyrir öðrum nemendum og skila
skýrslu um framgang verkefnisins. Áhersla er lögð á að meta samstarfshæfni nemenda, afrakstur hópastarfs, framsetningu kynningar, gæði
verkáætlunar og lokaskýrslu.
Lokamarkmið áfanga
Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:
- hugarflæði við hugmyndavinnu
- mikilvægi á góðri skilgreiningu á hugmynd og verkefni
- mikilvægi verkáætlana
- helstu þáttum almenns markaðsstarfs
- helstu markaðsmiðlum í nærsamfélagi
- mikilvægi á góðri skýrslugerð við skipulagningu og framkvæmd verkefna
- sjálfum sér, hugsun og verklagi.
Að nemandinn tileinki sér gagnrýna og skapandi lausnarhugsun og öðlist með því færni í að miðla
eigin hugmyndum og skoðunum.
Nemandi skal hafa öðlast leikni :
- í að virkja hugmyndaflugið
- í að tjá sig um eigin verk og annarra fyrir framan samnemendur
- í að kynna eigin hugmyndir og verkefni
- í hópastarfi sem meðal annars felur í sér samvinnu, virðingu, jákvæð samskipti, stjórnun, ábyrgð og
ákvarðanatöku
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- gera verkáætlun sem hentar þeirra verkefni
- gera kynningaráætlun fyrir eigið verkefni
- tileinka sér skapandi lausnarhugsun sem hann getur yfirflutt og nýtt bæði í leik og starfi
- öðlast aukna trú á sjálfan sig í skapandi vinnu og þora að stíga út fyrir þægindarammann og vinna með eigin hugmyndir
á sjálfstæðan og persónulegan hátt.
Námsmat
Lagt er mat á vinnu nemenda í hóp sem og einstaklingsframlag. Þá er lagt fyrir sjálfsmat og jafningjamat.